1. kafli

1. grein

Félagið heitir Q – félag hinsegin stúdenta. Á ensku kynnir félagið sig sem Q – Queer Student Association. Á alþjóðlegum vettvangi kynnir félagið sig sem The Queer Student Association of Iceland.

2. grein

Varnarþing félagsins er í Reykjavík. 

3. grein

Tilgangur félagsins er að: 

  • Gefa hinsegin fólki tækifæri til að hittast, veita þeim stuðning og auka samheldni þeirra. 
  • Vera sýnilegt afl innan háskóla og í forsvari þegar málefni hinsegin fólks ber á góma.

  • Beita sér fyrir hinsegin réttindabaráttu innan og utan háskóla.

  • Stuðla að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefni hópanna innan sem flestra háskólagreina. 
  • Skapa opinn vettvang fyrir þá sem vilja veita félaginu og málstað þess stuðning. 

4. grein

Öll hafa rétt til að skrá sig í félagið sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum 

  1. Námsmenn
  2. Starfsmenn við háskóla
  3. Einstaklingar á aldrinum 18-30 
  4. Nýútskrifaðir háskólastúdentar 

Stjórn er heimilt að veita öðrum félagarétt. Félagsfundi er heimilt að svipta einstaklingi félagsaðild gerist hann sekur um að ráðast gegn hagsmunum félagsins. Félagsgjöld eru ákveðin af stjórn hverju sinni og þau miðast við félagsárið frá 1. september til 31. ágúst. 

2. kafli

5. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í síðasta lagi í mars ár hvert. Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar með minnst 10 daga fyrirvara. Dagskrá skal birta með tveggja daga fyrirvara. Aðalfundur er alltaf ályktunarhæfur og sker hann sjálfur úr um hvort til hans sé löglega boðað.

6. grein

Dagskrá aðalfundar:


· Kosning fundarstjóra og fundarritara

· Skýrsla fráfarandi stjórnar

· Skoðaðir reikningar lagðir fram

· Lagabreytingar

· Kosning forseta

· Kosning sex stjórnarmeðlima

· Kosning tveggja skoðunaraðila reikninga

· Önnur mál

7. grein

Stjórn skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn í leynilegri atkvæðagreiðslu. Stjórnin skal skipuð sjö mönnum. Aðalfundur hefur heimild til útfæra kosningar á þann hátt sem best hentar hverju sinni. Að loknu stjórnarkjöri eru tveir skoðunaraðilar reikninga kosnir. Einungis skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt og kjörgengi.

8. grein

Félagsfund skal boða með minnst 5 daga fyrirvara. Stjórn boðar til hans þyki henni þess þörf og er skylt ef minnst 5 félaga krefjast þess og tilgreina fundarefni. Hafi stjórn ekki boðað til fundar innan 7 daga eftir að henni berst krafan geta hlutaðeigandi félagar sjálfir hvatt til fundarins. 

9. grein

Félagsfundur telst ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnar sækja hann. Verði félagsfundur ekki ályktunarhæfur skal boða til annars innan 7 daga og er sá fundur ályktunarhæfur með þeim sem þá mæta. 

10. grein

Lagabreytingafund skal boða til eins og félagsfundar. Með fundarboði skulu lagabreytingartillögur kynntar. Fundinum er einungis heimilt að taka fyrir þær tillögur sem kynntar eru í fundarboði. Lög um félagsfund gilda að öðru leyti um lagabreytingarfund. 

11. grein

Vantraustyfirlýsing á stjórn félagsins skal berast henni skriflega, undirrituð af minnst 7 félögum, skal stjórn boða til félagsfundar innan 7 daga. Vantraustyfirlýsing skoðast samþykkt ef félagsfundur er ályktunarhæfur og meira en 2/3 hlutar fundarmanna greiða atkvæði sitt með henni. Ef yfirlýsingin er samþykkt skal kjósa nýja stjórn eins og á aðalfundi. 

12. grein

Lýsa skal yfir vantrausti á einstaka stjórnarmeðlim á sama hátt og stjórnina í heild sinni.

3. kafli

13. grein

Forseti er oddamanneskja stjórnar og stjórnar fundum hennar nema þau skipi annan til þess.

Varaforseti gegnir störfum forseta í fjarveru þeirra sem og hefur umsjón með fræðslustarfi félagsins.

Gjaldkeri ber ábyrgð á fjármálum félagsins, hefur umsjón með öllum eignum þess og undirbýr fjárhagsáætlun fyrir félagsárið.

Ritari ritar fundargerð, heldur utan um skjalasafn félagsins og umfjallanir um félagið í fjölmiðlum. Ritari svarar jafnframt póstum sem berast félaginu í gegnum tölvupóst og Facebook.

Alþjóðafulltúi hefur umsjón með alþjóðastarfi, samskiptum við hinsegin samtök annarra landa og regnhlífasamtök hinsegin stúdenta í Evrópu. Þau skulu upplýsa framkvæmdarstjórn um alþjóðastarf samtakanna. Þau skulu sýna virðingu og ábyrgð í öllum alþjóðlegum samskiptum fyrir hönd félagsins.

Skemmtanafulltrúi ber ábyrgð á að viðburðir félagsins séu mannaðir og auglýstir, m.a. á samfélagsmiðlum félagsins.

Meðstjórnandi er varamanneskja stjórnar og tekur sæti stjórnarmeðlims sem lætur af embætti sínu.

14. grein

Stjórn félagsins fer með framkvæmdavald og skal starfa samkvæmt lögum félagsins og almennum fundarsköpum. Hún skal eftir megni vinna að hagsmunum félaga og vilja þeirra. Ef ágreiningur er innan stjórnar ræður meirihluti hennar. 

15. grein

Láti einhver stjórnarmeðlimur af embætti tekur meðstjórnandi sæti hans. Ef meðstjórnandi eru ekki til staðar skipar stjórn úr röðum félaga. 

16. grein

Stjórninni er heimilt að skipa í nefndir og embætti á vegum félagsins og útbúa þeim starfsreglur. 

17. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn félagsins fer með fjármálavald. Allar greiðslur félagsins skulu fara í gegnum bankareikning. 

18. grein

Skoðunaraðilar reikninga eiga rétt á að fylgjast með reikningum og sjóðum félagsins. Uppgjör reikningsársins skal berast skoðunaraðilum 2 vikum fyrir aðalfund. 

4. kafli

19. grein

Lögum þessum verður aðeins breytt á lagabreytingafundi eða aðalfundi. Til að lagabreytingar nái fram að ganga þurfa 2/3 hlutar fundaraðila að greiða þeim atkvæði. Leggja má fram lagabreytingartillögur á aðalfundi en á lagabreytingarfundi þurfa þær að vera skilgreindar í fundarboði. 

20. grein

Lagabreytingar öðlast þegar gildi, nema að kveðið sé um annað. 

21. grein

Tillögu að félagsslitum má bera upp á aðalfundi og telst samþykkt ef 3/4 hlutar greiða því atkvæði á tveimur aðalfundum í röð. 

22. grein

Ef starfsemi félagsins leggst niður skulu eignir þess og gögn vera í vörslu Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar til félagið verður endurvakið. 

Lög samþykkt á aðalfundi 23. mars 2022. Með þessum lögum falla öll eldri lög úr gildi.