Félag samkynhneigðra stúdenta var stofnað 25. janúar 1999 í kjölfar reglulegra funda þar sem staða samkynhneigðra við Háskóla Íslands var rædd og krufin. Fjöldi félaga fór strax yfir 150. Félagið hefur gjarnan verið róttækara en gengur og gerist meðal hinsegin samtaka og því veitt hinsegin pólitík á Íslandi mikilvægt aðhald. Það var í fararbroddi þegar kom að því að taka tvíkynhneigða og trans fólk inn í félagið og varð fyrst til að taka orðið „hinsegin“ inn í formlegt heiti félagsins til að undirstrika að það þjónaði hagsmunum fjölbreyttra hópa hinsegin fólks. Þetta gerðist árið 2008 þegar nafni félagsins var breytt í Q – félag hinsegin stúdenta.

Markmið félagsins:

  • Gefa hinsegin (LGBTQIA+) stúdentum tækifæri til að hittast, veita þeim stuðning og auka samheldni þeirra
  • Vera sýnilegt afl innan háskóla og í forsvari þegar málefni hinsegin einstaklinga ber á góma
  • Beita sér í réttindabaráttu hinsegin fólks innan og utan háskóla
  • Stuðla að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefnið innan sem flestra deilda háskóla

Félagið fyrir þig!

Hvort sem þú ert hinsegin eða ert óörugg/ur/t með kynhneigð og/eða kynvitund þína þá er Q fyrir þig. Félagið er fyrir alla þá sem láta sér málefni hinsegin fólks varða. Fólk sem er að stíga sín fyrstu skref, er komið út úr skápnum eða langar að vita meira ættu endilega að hafa samband og taka þátt í starfi félagsins. Félaginu er ætlað að vera óþvingaður vettvangur til að hitta og kynnast fólki á sama reki.

Hópurinn eru stúdentar og ungt fólk sem hittast reglulega og spjalla saman um daginn og veginn. Auk þess stendur Q fyrir öðrum uppákomum til að auka fjölbreytnina, t.d. helgarferðir, bjórkvöld, málstofur og bíósýningar. Fólk er hvatt til að láta sjá sig á fundunum. Við tökum vel á móti öllum.